Listsaumur

Unnur Ólafsdóttir, hannyrða- og kirkjulistakona                                                      *20.1.1897 í Keflavík †18.8.1983 í Reykjavík

Unnur var ein af sex börnum hjónanna Vigdísar Ketilsdóttur (1868−1966) frá Kotvogi í Höfnum og Ólafs Ásbjarnarsonar (1863−1943) frá Innri-Njarðvík, kaupmanns í Keflavík og síðar í Reykjavík. Báðir afar hennar voru þekktir stórhuga bændur sem efnuðust vel og til þess var tekið að þeir „reistu sína kirkjuna hvor úr höggnu grjóti. Ásbjörn Innri-Njarðvíkurkirkju og Ketill Hvalsneskirkju“ (Mbl. 1983). Eftir að fjölskyldan flutti til Reykjavíkur 1905 bjó hún lengst af á Grettisgötu 26. UÓ gekk í Landakotsskóla þar sem hún vakti athygli 14 ára gömul fyrir frammistöðu sína í hannyrðum á Iðnsýningunni í Reykjavík 1911. Sextán ára gömul sigldi hún til Kaupmannahafnar 1913 í þeim tilgangi að leita lækninga við meðfæddri valbrá í andliti. Hún var með fyrstu sjúklingum á Norðurlöndum sem hlaut „radíum“ meðferð við þessu meini sem seinna leiddi til blindu á öðru auganu og annars heilsuleysis. Jafnframt læknismeðferðinni stundaði hún nám við skóla Dansk Kunstflidsforening og dvaldi í Kaupmannahöfn með hléum í átta ár (Auður Stefánsdóttir 1984). Allt frá unga aldri þurfti UÓ jafnan að haga starfskröftum sínum eftir þvi sem heilsan leyfði. 

Hún fór snemma að kenna ýmsa handavinnu eins og hedebo, knipl og „kunstbróderí“. Frá 1921−1927 rak hún hannyrðaverslun, fyrst á Grettisgötu 26, síðan á Kirkjutorgi 4 en lengst af í Bankastræti 14. Þar seldi hún m.a. útsaumsgarn og áteiknaða dúka, púða og löbera fyrir útsaum sem ætlaðir voru „til heimilisprýði“. UÓ innleiddi einnig nýjungar að utan á við flosvélar til heimilisnota. Jafnframt verslunarrekstrinum saumaði hún m.a. út stórt veggklæði (415x 210) eftir teikningum Tryggva Magnússonar (1900−1960) af útskurði Valþjófsstaðahurðarinnar, verk sem hún sýndi á Charlottenborg í september 1930.

Á fjórða áratungum fékkst UÓ við ýmiss konar listsaum, m.a. við gerð félagafána. Þegar kom fram á fimmta áratuginn urðu þáttaskil og hún snýr sér nær eingöngu að verkum fyrir kirkjuna. Hún starfrækti listsaumaverkstæði ásamt aðstoðarstúlkum á heimili sínu allt til æviloka. Messuklæði, altarisklæði, altaristöflur og dúkar eftir UÓ prýða nokkra tugi kirkna á Íslandi víða um land. Öll bera þau einstakt og auðþekkjanlegt yfirbragð þar sem saman fer vandað efni og einstakur útsaumur á við skurðsaum og gullsaum. Hún gerði sér far um að nota íslenskt hráefni í verk sín fyrir kirkjur landsins eins og vaðmál, hör ræktaðan á Bessastöðum, steinbítsroð og steina úr Glerhallavik, auk vandaðra innfluttra efna á við silki, flauel og damask.

Frá 1924 vann UÓ útsaumsverk, félagafána og kirkjuleg verk oft í samstarfi við Tryggva Magnússon teiknara. Hún sýndi útsaumsverk í Reykjavík 1922, 1923 og 1930. Hún tók þátt í samsýningu kvenna í Reykjavík 1924. Á fimmta áratugnum hélt hún einkasýningar á kirkjugripum sínum í Háskólakapellunni 1944 og 1947 og í Sjómannaskólanum árið 1949. Árið 1953 sýndi hún kirkjulega listmuni í Bogasalnum og 1956 í Háskólakapellunni. Eftir að hún og eiginmaður hennar Óli M. Ísaksson (1898−1995) byggðu hús sitt á Dyngjuvegi 4 snemma á fimmta áratugnum varð húsið sjálft innanstokks sem forvitnilegt safn innlendra og erlendra, fornra og nýrra kirkjugripa sem mörgum gafst kostur á að heimsækja. Á ferðum sínum erlendis gerði UÓ sér m.a. far um að skoða kirkjur og kirkjulist, t.d. í Danmörku en einkum í Svíþjóð þar sem henni fannst sú list standa með miklum blóma. Til Svíþjóðar sótti hún jafnframt innblástur og nýja þekkingu í útsaumslist.

Verk hennar prýða allar helstu kirkjur landsins. Þar bera þau handbragði hennar og listsköpun vel vitni og telja má að þau marki tímamót í sögu kirkjulistar hér á landi. Í apríl 1983 var hún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir listsaum og gerð kirkjumuna. Hún lést í Reykjavík í ágúst sama ár.  

Heimildir: Höklar. Íklæðist hinum nýja manni (Efesuarbréfið 4,24). Ritstjóri Gunnar Kristjánsson. Reykjavík 1993.– Bragi Ásgeirsson, „Kirkjulistamunir Unnar Ólafsdóttur“, Lesbók Morgunblaðsins 11. maí 1985.– Auður Stefánsdóttir, „Listakonan Unnur Ólafsdóttir“, Hugur og hönd 1984, bls. 4−6. — Minningargreinar 1983. — „Verk hennar prýða margar kirkjur landsins. Heimsókn til frú Unnar Ólafsdóttur“, Alþýðublaðið 26 mars 1959, bls. 3,11. — Víkverji, „Einstæð listsýning“, Morgunblaðið, 17. Júní 1949, bls 8.– Sigbjörn Ármann, „Gimsteinarnir í Glerhallarvík og íslensk listsköpun“, Morgunblaðið 6. júlí 1949, bls. 6, 12.– „Merkilegt listmunastarf Unnar Ólafsdóttur“, Þjóðviljinn 3. nóv. 1948, bls. 3.  — Ríkarður Jónsson, „Merk og nýstárleg sýning í Háskólanum“, Vísir 29. Júlí 1947, bls. 4. — Árný Filippusdóttir, „Júní 1944“, Nýtt kvennablað 5:6-7 (1944), bls. 2. — „Fegursti hökull og altarisklæði á Íslandi“, Vísir 9. júní 1944, bls. 2. — Halldóra Bjarnadóttir, „Um myndirnar (skýringar)“, Hlín 16.árg (1932). Ljósmynd af teppinu í fullri stærð, bls. 132. — „Veggklæði Unnar Ólafsdóttur“, Morgunblaðið 28. desember 1930, bls. 8. — „Merkilegur útsaumur“ Morgunblaðið 11. júlí 1930, bls. 3. „Handavinnusýningu hefur Unnur Ólafsdóttir opnað ….“, Lögrjetta 18:17 (17.12.1923).
Árið 2018 höfðu 31 bindi af ritröðinni Kirkjur Íslands  komið út, þar af eru verk Unnar Ólafsdóttur í a.m.k. 32 kirkjum víðsvegar um land.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s